Hugtakið kulnun í starfi hefur almennt ekki verið mikið notað í íslensku tali undanfarin ár en þó er farið að aukast að rætt sé um það að einhver sé útbrunnin í starfi.
Margir kannast við að vinna á vinnustöðum þar sem vinnuálag er mikið og mannaforráð af skornum skammti. Hér er hægt að nefna sem dæmi, heilbrigðisstéttir, starfsmenn félagsþjónustu og kennara en þessar stéttir eru skv. rannsóknum í meiri hættu en aðrar stéttir til að upplifa kulnun í starfi á sínum starfsferli.
Vinnuveitendur bera ábyrgð á því að stjórna vinnuálagi á sitt starfsfólk og oft getur það verið hægara sagt en gert. Það er þó sérstaklega vandasamt á tímum efnahagsþrenginga þar sem vinnuálag eykst vegna samdráttar. Hins vegar er það misjafnt á milli vinnustaða hvernig að því er staðið að fylgjast með að álag á starfsfólk sé innan eðlilegra marka og hvort eða hvernig brugðist er við því.
Einkennum kulnunar í starfi getur svipað til einkenna þunglyndis. Í pistli sem birtist á mbl.is þann 19.febrúar 2015 útskýrir Brynja Bragadóttir doktor í vinnusálfræði muninn á þunglyndi og kulnun.
Þunglyndi er sjúkdómur sem snertir öll svið daglegs lífs. Kulnun er ekki sjúkdómur, heldur samsafn einkenna sem fyrst og fremst snerta vinnusviðið. Afleiðingar kulnununar geta hins vegar verið þunglyndi og/eða líkamlegir sjúkdómar. Kulnun er líka annars konar ástand en streita. Til að mynda eru einkenni streitu oftast líkamleg en einkennni kulnunar tilfinningaleg. Langvarandi streita getur þó leitt til kulnunar.
Skv. vinnusálfræðingnum og prófessornum, Wilmar Schaufeli, við Háskólann í Utrecht í Hollandi, eru þó líka einstaklingsbundnir þættir sem geta haft áhrif á kulnun og þarf að taka þá með í reikninginn samhliða vinnutengdum þáttum. Þetta geta þá verið þættir eins og fullkomunarárátta einstaklingsins og þær miklu væntingar sem hann gerir til sjálfs síns en líka óhófslegt vinnuálag til langs tíma litið. Inn í þetta fléttast svo nálgun yfirmanns, hvatning ofl.
En hvað þýðir það að vera útbrunnin í starfi og hvað er hægt að gera í því? Eins og fram kom hér að ofan þá getur einkennum kulnunar í starfi svipað til einkenna þunglyndis og ætti hver stjórnandi að fylgjast með líðan sinna starfsmanna. Það verður að bregðast við og aðstoða viðkomandi starfsmann fyrst og fremst með skilningi á aðstæðum hans og úrræðum til að vinna bug á þessum vanda. Stjórnendur í ofangreindum stéttum ættu sérstaklega að huga að sínum starfsmönnum og skima fyrir kulnun í starfi með þar til gerðum listum. Að auki er mikilvægt fyrir stjórnendur að huga að þremur þáttum innan vinnustaðarins en þeir eru:
umhyggja til starfsmanna
jafnvægi á milli hæfni starfsmanns og kröfu vinnustaðarins
að gæta fjölbreytileika í starfi t.d. með endurmenntun/starfsmenntun
Þeir sem glíma við kulnun í starfi þurfa aðstoð sem m.a. felst í að læra slökunartækni og önnur bjargráð auk viðtala við sérfræðinga á þessu sviði. Að auki þarf vinnustaðurinn að fara í naflaskoðun og bæta þær aðstæður sem geta leitt til kulnunar í starfi. Helgun í starfi er hinn hliðin á sama peningnum og win- win staða fyrir alla aðila er að sú hlið snúi upp.
Bloggar | 29.2.2016 | 12:22 (breytt kl. 12:22) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vellíðan er mikilvæg í öllum samfélögum og hefur sennilega enn mikilvægari sess í litlum samfélögum þar sem samskiptin eru náin og oft svo snúin. Fólk er stundum í mörgum hlutverkum og hefur mismunandi hagsmuna að gæta hverju sinni. Aðrir þurfa að vera meðvitaðir um í hvaða hlutverki fólk er hverju sinni og virða rétt fólksins til einkalífs þess á milli.
Upplifanir fólks á veruleikanum, atburðarrásum og orðum náungans geta verið misjafnar. Upplifun hvers og eins getur verið sprottin út frá hugsunum okkar,þroska og einnig líðan hverju sinni. Við getum upplifað sama eða svipaðan atburð með misjöfnum hætti eftir því hvernig við erum stemmd þegar hann á sér stað. Auðvitað skiptir líka máli með hvaða hætti aðrir tjá orðin sín okkar garð. Það er ekkert svart og hvítt í þessu frekar en öðru. Opin tjá skipti eru mikilvægt afl í öllum samskiptum manna á milli. Þau eru samskipti sem eiga sér stað á milli tveggja aðila þar sem talað er opið um málefnið hvort sem það er með jákvæðum eða neikvæðum hætti. Þessi tjáskiptaháttur er enn mikilvægari þegar fólk er ósammála um hlutina. Það verður nefnilega að vera hægt að vera ósammála án þess að vera ásakandi í garð hins. Í versta falli má alltaf vera sammála um að vera ósammála. Sama má segja um reiði en hana þarf líka að kunna að tjá án ásakana. Mikilvægt er að kunna að stjórna reiðinni og fá útrás fyrir hana á heilbrigðan hátt eða þann hátt sem særir ekki eða ógnar öðrum í manns nánasta umhverfi.
Í öllum samskiptum er svo mikilvægt að finna lausnir í stað þess að benda á blóraböggla og þessi tjáningarleið kemur svo sannarlega í veg fyrir misskilning vegna mismunandi túlkana fólks á upplifun þess. Það er ríkt í manninum að skiptast í hópa með eða á móti einhverjum en það er verulega varasamt. Eins og sagt var í byrjun er upplifun fólks mismunandi og ef einhver er vondur við hann Jón vin þinn að hans eigin sögn er það ekkert endilega rétt hjá honum. Við höfum sjaldnast allar forsendur til að mynda okkur skoðun. Það er í góðu lagi að hlusta á fólk, sýna skilning og reyna að leiðbeina en meira í lagi varasamt að mynda sér afstöðu þegar um orð þriðja aðila eiga í hlut. Of oft fara þá líka sögusagnir á kreik sem enginn veit í raun hvort að fótur sé fyrir. Það er nefnilega í eðli fólks að fylla inn í eyður til að fá rökræna útkomu. Talaðu beint við hann sem þú ert ósáttur við. Ekki við konuna hans eða frænda hans, þeir hafa ekkert með þetta að gera.
Best er að tala hreint út um hlutina. Útskýra og upplýsa því þá getur ekki sá sem vill reyna að dvelja í neikvæðni og leiðindum haldið því áfram. Af hverju? Jú af því það var talað opið út um málið og hinir vita því betur. Opinber samskipti skilja eftir miklu betri niðurstöður og lausnir en engin samskipti eða samskipti í gegnum þriðja aðila, það er bara staðreynd. Til að iðka opin samskipti þarf samt að byrja á sjálfum sér og sinni eigin fjölskyldu. Mikilvægast er að kenna börnunum okkar þetta jákvæða tjáningarform því það hefur forvarnargildi.
Verum hrein og bein það er alltaf best og kemur í veg fyrir enn meiri vanda.
Bloggar | 3.2.2016 | 14:47 (breytt 4.2.2016 kl. 18:06) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Umræðan í fjölmiðlum undanfarið hefur verið að mér finnst á mjög neikvæðum nótum undanfarið. Hver umfjöllunin á fætur annarri fjallar um að reyna að afhjúpa einhver mistök eða afglöp jafnvel í starfi sem og að einblína á að finna einhvern sökudólg til að skella skuldinni á. Þessi umræða dregur úr manni þrek og orku.
Þessi fórnarlambsvæðing er að mínu mati að verða svolítið þreytandi. Hvað með að reyna að fókusera á eitthvað jákvætt og uppbyggjandi? Þarf ekki þjóðin á því að halda? Myndi okkur ekki öllum líða betur? Við búum í litlu samfélagi þar sem flest mál sem koma upp í fjölmiðlum snerta okkur á einhvern hátt. Ég hef unnið í félagsþjónstu í 12 ár og ég veit að það er mikið af hörmulegum málum í gangi þarna úti en á sama tíma veit ég líka að það er frábært fagfólk að störfum í þessum málaflokkum sem reynir að vinna lausnarmiðað og aðstoða fólk með að fá viðeigandi meðferðir.
Þurfum við að taka upp öll þessi mál til umræðu í fjölmiðlum eða á samfélagsmiðlum. Er það ekki annað áfall fyrir fórnarlömbin? Ég held að það virki ekki sem stuðningur við fórnarlömb glæpa og ofbeldis, því miður. Með þessu er ekki verið að meina að þöggun eigi að eiga sér stað, það er allt annar hlutur.
Erum við komin á þann stað að uppbyggileg umræða á varla séns í fjölmiðlum af því hún selur ekki nógu mikið? Hver ber ábyrgð á því? Hvaða skilaboð erum við að senda til barnanna okkar? Við berum auðvitað öll ábyrgð á okkur sjálfum en erum óneitanlega í þeirri í stöðu að þurfa að fylgja fjölmiðlaumræðunni því hún er stýrandi í samfélaginu okkar. Það væri óskastaða fyrir líðan og heilsu okkar landsmanna að umræðan fari að verða aðeins uppbyggilegri en hún er og þar liggur ábyrgð fjölmiðla. Siðferðileg skylda mætti kalla það. Svo berum við auðvitað öll ábyrgð á okkar framlagi á samfélagsmiðlunum. Það mætti kalla þetta samfélagslega ábyrgð.
Bloggar | 26.11.2015 | 17:05 (breytt kl. 22:01) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Umræða um eineltismál barna eru tíð í fjölmiðlum og ber nú á góma þegar skólarnir eru að byrja að nýju eftir sumarfrí. Oftar en ekki snúast þær umræður um meint úrræðaleysi skólayfirvalda til þess að taka á slíkum málum eða einhvers konar getuleysi til þess að leysa þau. Skv. 13.gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 eru grunnskólar vinnustaður nemenda og ber því skólayfirvöldum að taka á eineltismálum sem og öðrum sálfélagslegum vandamálum. Grunnskólaárin eru mikilvægur undirbúningur barna hvað varðar félagslega þætti og samskiptafærni. Flestir skólar eru með eineltisstefnur og má því leiða líkum að því að þeir séu með viðbragðsáætlun komi einelti upp í skólanum. Niðurstöður í rannsókn Hjördísar Árnadóttur árið 2011 sýna að flestir skólar séu vel í stakk búnir að taka á eineltismálum en forvörnum sé ábótavant. Það er rétt að árétta það að einelti er ofbeldi. Þetta á við um hvort sem um er að ræða einelti á milli barna eða fullorðinna.
Hins vegar er sá munur á einelti barna og fullorðinna að börnin geta sér enga vörn veitt sjálf og þurfa því að stóla á að fullorðna fólkið taki rétt á ofbeldismáli í þeirra garð og af heilindum og ábyrgð. Barnaverndarlögin fjalla ekki um einelti sem slíkt og koma því oftast barnaverndarstarfsmenn ekki inn í eineltismál nema að annað hvort þá gerandi eða þolandi í málinu sé skilgreint sem "opið mál" hjá barnaverndinni. Úr ofangreindri rannsókn kom fram að félagsþjónustan komi aðeins inn í slík mál séu þau orðin of erfið fyrir skólana að vinna úr. Úrræðum er því ábótavant og eru flestir foreldrar að standa í að verja börnin sín hvað þessi mál snertir innan skólanna. Dæmi eru um að fjölskyldur þurfi að flytja burt úr sveitarfélagi til að barnið þeirra njóti friðar. Er slíkt ásættanlegt árið 2015?
Börn hafa sömu mannréttindi og fullorðnir og eiga rétt á að komið sé fram við þau af kurteisi og virðingu. Börn þurfa að geta treyst á að fullorðna fólkið aðstoði þau, líði þeim illa og virði líðan þeirra. Fullorðnir bera því ábyrgð á að fá nauðsynlega og fullnægjandi fræðslu um ofbeldismál af þessu tagi til að geta leyst málin með farsælum hætti.
Að sjálfssögðu verða ekki allir foreldrar sáttir í eineltismálum og flestir foreldrar vilja ekki trúa að börnin þeirra leggi í einelti. Staðreyndin er hins vegar sú að börn sem leggja í einelti eiga foreldra. Við megum því ekki fara í afneitun. Við verðum að horfast í augu við málið hversu erfitt sem það er. Okkur ber skylda til að leggja okkar af mörkum til úrlausnar. Við erum fyrirmyndir barnanna okkar og það eru kennarar líka. Hvaða skilaboð erum við að gefa börnum okkar ef við stingum hausnum í sandinn? Hvaða skilaboð er skólakerfið að senda börnunum ef þeir geta ekki leyst málin? Er það lausn að flytja úr sveitarfélaginu?
Sumir hafa sagt við mig í starfi mínu að skólayfirvöld "leysi málið" með því að láta geranda og þolanda takast í hendur og "sættast". Það er auðvitað algjörlega óásættanlegt að ná sáttum í ofbeldismálum, þar sem annar aðilinn er með "yfirburðastöðu" gagnvart hinum. Þetta á bæði við um börn og fullorðna. Það eru til lausnir og bjargráð í eineltismálum, bæði hjá fullorðnum og börnum. Telji skólar sig ekki vera í stakk búna til að taka slíkum málum er best að kalla til fagmenn sem vinna með einelti barna. Einelti er alvarlegt mál sem getur haft hræðilegar afleiðingar. Jafnframt er mikilvægt að skólasamfélagið vinni markvisst með foreldrafélögum og Samtökum heimili og skóla til að taka á þessum erfiðu málum. Forvarnir eru hér lykilorð. Það eru án efa allir sammála um að best sé að byrgja brunninn áður en barnið dettur þar ofan í.
Eflum fræðslu um einelti.
Bloggar | 29.8.2015 | 21:38 (breytt 31.8.2015 kl. 09:00) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Á árum áður þegar kona varð fyrir kynferðisofbeldi var talið að hún hafi með einhverjum hætti boðið upp á það. Að hún hafi t.d. ögrað gerandanum með hegðun sinni, útliti eða klæðaburði. Þetta sama segja oft barnaníðinga, þ.e. þegar þeir réttlæta brot sitt gagnvart börnum. Dæmi um skýringu væri að barnið sjálft hefði sýnt kynferðislega tilburði. Í mörgum ríkjum heims er þetta enn við lýði og í sumum löndum er konum refsað fyrir að vera þolendur nauðgunar. Þetta viðhorf er sem betur fer á undanhaldi á Vesturlöndum. Hér á landi stingur það hins vegar í stúf að þolendur annars konar ofbeldis, t.d. eineltis (á vinnustað, í skóla eða á öðrum vettvangi), eru oft gerðir ábyrgir fyrir ofbeldinu. Í dag logar allt á frétta- og samfélagsmiðlum vegna frásagna kvenna um kynferðisofbeldi. Konur neita að þaga lengur og tala opinberlega um þessa erfiðu lífsreynslu. Það er frábær staðreynd hugaðra íslenskra kvenna sem neita að bera harm sinn í hljóði.
Á sama tíma spyr undirrituð sig að því hvernig á því standi að við erum ekki komin lengra í opinberun og umræðu á einelti, einkum og sér í lagi vinnustaðaeinelti. Þolendur vinnustaðaeineltis eru hikandi við að segja frá ofbeldinu sem þeir verða fyrir. Ástæðan er fyrst og fremst sú að það ríkja enn fordómar í þjóðfélaginu. Ef þeir koma fram þá trúa þeim fáir og/eða þeir sjálfir gerðir ábyrgir fyrir eineltinu. Þetta á sérstaklega við um hópelti (e. mobbing), þ.e. þá tegund ofbeldis þegar tveir eða fleiri einstaklingar veitast að öðrum einstakingi. Í slíkum tilvikum eru vinnuveitendur oft þátttakendur líka, þar sem þeir ásaka þolandann fyrir ofbeldið eða trúa ekki orðum hans. Þá falla rannsakendur í eineltismálum, sálfræðingar og læknar oft í þá gryfju að ásaka þolandann. Nánar tiltekið er viðhorfið oft að þolandinn sé vandamálið en ekki gerandinn. Undirrituð veit um nokkur slík tilvik hér á landi. Slík ályktun er annað áfall fyrir þolandann (á ensku talað um re-victimization).
Algengt er að gerendur vinnustaðaeineltis gefi þolendum að sök að eiga erfitt andlega og jafnvel koma af stað sögum um að viðkomandi eigi við geðrænan vanda að stríða. Einnig er það oft borið upp á þolendur að eiga erfitt í einkalífi. Ef um konur er að ræða eru þær stimplaðar erfiðar í samskiptum, klikkaðar, frekar/stjórnsamar o.fl.
Raunin er sú að þegar samskiptasaga margra þolanda er skoðuð kemur oft í ljós að hvorki fyrr né síðar hafi viðkomandi átt í samskiptavanda á vinnustað. Nauðsynlegt er þegar eineltismál eru skoðuð að kanna tvenns konar þætti, þ.e. þætti sem tengjast einstaklingum og þætti sem tengjast umhverfinu (t.d. stjórnun og menningu vinnustaðar). Er þetta mikilvægt í tvenns konar skilningi. Annars vegar til að komast að réttri niðurstöðu og hins vegar til að fyrirbyggja frekara einelti á vinnustaðnum.
Ef vanþekking úttektaraðila eða annað veldur því að rannsóknir leiða til rangra niðurstaðna, þá er ekki skrítið að þolendur stígi ekki fram og leit sér hjálpar. Bæði upplifa þeir vonleysi og ótta við að vera dæmdir. Skv. rannsóknum Workplace Bullying Institute(WBI 2013) kemur fram að 47% þolanda telja að fagmenn hafi ekki vitað nógu mikið um einelti til að geta aðstoðað þá með meðferð í kjölfarið. 70% fagfólks þyrfti skv. rannsókninni að fá frekari fræðslu um áhrif stjórnunar og menningar á umhverfið. Klínískir sálfræðingar fókusera mest á að eitthvað sé að í fari einstaklingsins sem til þeirra leitar (þolandans)og gera ekki ráð fyrir að aðrir umhverfis þættir í stjórnun hafi áhrif. Þetta er þekkt sem "the attribution error".
Eins og kerfið virkar í dag á Íslandi, þá er best fyrir þolendur að þegja. Vandinn er með öðrum orðum þaggaður niður. Um leið er óhætt að fullyrða að margir berjast við vanlíðan á vinnustað sem og í einkalífi. Skilaboðin í þessari grein eru þau að því fylgir mikil ábyrgð að rannsaka einelti og aldrei ásættanlegt að gera einn einstakling (þolandann) ábyrgan fyrir vandanum. Þolendur vinnustaðaeineltis eiga rétt á aðstoð og samþykki rétt einsog aðrir þolendur ofbeldis.
Höfundur er eigandi og ráðgjafi hjá Officium ráðgjöf ehf.
Bloggar | 10.6.2015 | 16:03 (breytt 11.6.2015 kl. 22:41) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eldri færslur
- Júní 2025
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Október 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Apríl 2023
- Nóvember 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Október 2021
- Júní 2021
- Júlí 2020
- Júní 2019
- Nóvember 2018
- Ágúst 2018
- Febrúar 2018
- Nóvember 2017
- Ágúst 2017
- Maí 2017
- Mars 2017
- Nóvember 2016
- Ágúst 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Nóvember 2015
- Ágúst 2015
- Júní 2015