Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2016

Kulnun í starfi (Burn out)

Hugtakið kulnun í starfi hefur almennt ekki verið mikið notað í íslensku tali undanfarin ár en þó er farið að aukast að rætt sé um það að einhver sé útbrunnin í starfi.

Margir kannast við að vinna á vinnustöðum þar sem vinnuálag er mikið og mannaforráð af skornum skammti. Hér er hægt að nefna sem dæmi, heilbrigðisstéttir, starfsmenn félagsþjónustu og kennara en þessar stéttir eru skv. rannsóknum í meiri hættu en aðrar stéttir til að upplifa kulnun í starfi á sínum starfsferli.

Vinnuveitendur bera ábyrgð á því að stjórna vinnuálagi á sitt starfsfólk og oft getur það verið hægara sagt en gert. Það er þó sérstaklega vandasamt á tímum efnahagsþrenginga þar sem vinnuálag eykst vegna samdráttar. Hins vegar er það misjafnt á milli vinnustaða hvernig að því er staðið að fylgjast með að álag á starfsfólk sé innan „eðlilegra marka“ og hvort eða hvernig brugðist er við því.

Einkennum kulnunar í starfi getur svipað til einkenna þunglyndis. Í pistli sem birtist á mbl.is þann 19.febrúar 2015 útskýrir Brynja Bragadóttir doktor í vinnusálfræði muninn á þunglyndi og kulnun.

„Þunglyndi er sjúkdómur sem snertir öll svið daglegs lífs. Kulnun er ekki sjúkdómur, heldur samsafn einkenna sem fyrst og fremst snerta vinnusviðið. Afleiðingar kulnununar geta hins vegar verið þunglyndi og/eða líkamlegir sjúkdómar. Kulnun er líka annars konar ástand en streita. Til að mynda eru einkenni streitu oftast líkamleg en einkennni kulnunar tilfinningaleg. Langvarandi streita getur þó leitt til kulnunar.“

Skv. vinnusálfræðingnum og prófessornum, Wilmar Schaufeli, við Háskólann í Utrecht í Hollandi, eru þó líka einstaklingsbundnir þættir sem geta haft áhrif á kulnun og þarf að taka þá með í reikninginn samhliða vinnutengdum þáttum. Þetta geta þá verið þættir eins og fullkomunarárátta einstaklingsins og þær miklu væntingar sem hann gerir til sjálfs síns en líka óhófslegt vinnuálag til langs tíma litið. Inn í þetta fléttast svo nálgun yfirmanns, hvatning ofl.

En hvað þýðir það að vera útbrunnin í starfi og hvað er hægt að gera í því? Eins og fram kom hér að ofan þá getur einkennum kulnunar í starfi svipað til einkenna þunglyndis og ætti hver stjórnandi að fylgjast með líðan sinna starfsmanna. Það verður að bregðast við og aðstoða viðkomandi starfsmann fyrst og fremst með skilningi á aðstæðum hans og úrræðum til að vinna bug á þessum vanda. Stjórnendur í ofangreindum stéttum ættu sérstaklega að huga að sínum starfsmönnum og skima fyrir kulnun í starfi með þar til gerðum listum. Að auki er mikilvægt fyrir stjórnendur að huga að þremur þáttum innan vinnustaðarins en þeir eru:

• umhyggja til starfsmanna

• jafnvægi á milli hæfni starfsmanns og kröfu vinnustaðarins

• að gæta fjölbreytileika í starfi t.d. með endurmenntun/starfsmenntun

5-ways-avoid-burnout/www.entrepreneurs.com Þeir sem glíma við kulnun í starfi þurfa aðstoð sem m.a. felst í að læra slökunartækni og önnur bjargráð auk viðtala við sérfræðinga á þessu sviði. Að auki þarf vinnustaðurinn að fara í naflaskoðun og bæta þær aðstæður sem geta leitt til kulnunar í starfi. Helgun í starfi er hinn hliðin á sama peningnum og „win- win“ staða fyrir alla aðila er að sú hlið snúi upp.


Opin tjáskipti

Vellíðan er mikilvæg í öllum samfélögum og hefur sennilega enn mikilvægari sess í litlum samfélögum þar sem samskiptin eru náin og oft svo snúin. Fólk er stundum í mörgum hlutverkum og hefur mismunandi hagsmuna að gæta hverju sinni. Aðrir þurfa að vera meðvitaðir um í hvaða hlutverki fólk er hverju sinni og virða rétt fólksins til einkalífs þess á milli.

Upplifanir fólks á veruleikanum, atburðarrásum og orðum náungans geta verið misjafnar. Upplifun hvers og eins getur verið sprottin út frá hugsunum okkar,þroska og einnig líðan hverju sinni. Við getum upplifað sama eða svipaðan atburð með misjöfnum hætti eftir því hvernig við erum stemmd þegar hann á sér stað. Auðvitað skiptir líka máli með hvaða hætti aðrir tjá orðin sín okkar garð. Það er ekkert svart og hvítt í þessu frekar en öðru. Opin tjá skipti eru mikilvægt afl í öllum samskiptum manna á milli. Þau eru samskipti sem eiga sér stað á milli tveggja aðila þar sem talað er opið um málefnið hvort sem það er með jákvæðum eða neikvæðum hætti. Þessi tjáskiptaháttur er enn mikilvægari þegar fólk er ósammála um hlutina. Það verður nefnilega að vera hægt að vera ósammála án þess að vera ásakandi í garð hins. Í versta falli má alltaf vera sammála um að vera ósammála. Sama má segja um reiði en hana þarf líka að kunna að tjá án ásakana. Mikilvægt er að kunna að stjórna reiðinni og fá útrás fyrir hana á heilbrigðan hátt eða þann hátt sem særir ekki eða ógnar öðrum í manns nánasta umhverfi.

Í öllum samskiptum er svo mikilvægt að finna lausnir í stað þess að benda á blóraböggla og þessi tjáningarleið kemur svo sannarlega í veg fyrir misskilning vegna mismunandi túlkana fólks á upplifun þess. Það er ríkt í manninum að skiptast í hópa með eða á móti einhverjum en það er verulega varasamt. Eins og sagt var í byrjun er upplifun fólks mismunandi og ef einhver er vondur við hann Jón vin þinn að hans eigin sögn er það ekkert endilega rétt hjá honum. Við höfum sjaldnast allar forsendur til að mynda okkur skoðun. Það er í góðu lagi að hlusta á fólk, sýna skilning og reyna að leiðbeina en meira í lagi varasamt að mynda sér afstöðu þegar um orð þriðja aðila eiga í hlut. Of oft fara þá líka sögusagnir á kreik sem enginn veit í raun hvort að fótur sé fyrir. Það er nefnilega í eðli fólks að fylla inn í eyður til að fá rökræna útkomu. Talaðu beint við hann sem þú ert ósáttur við. Ekki við konuna hans eða frænda hans, þeir hafa ekkert með þetta að gera.

Best er að tala hreint út um hlutina. Útskýra og upplýsa því þá getur ekki sá sem vill reyna að dvelja í neikvæðni og leiðindum haldið því áfram. Af hverju? Jú af því það var talað opið út um málið og hinir vita því betur. Opinber samskipti skilja eftir miklu betri niðurstöður og lausnir en engin samskipti eða samskipti í gegnum þriðja aðila, það er bara staðreynd. Til að iðka opin samskipti þarf samt að byrja á sjálfum sér og sinni eigin fjölskyldu. Mikilvægast er að kenna börnunum okkar þetta jákvæða tjáningarform því það hefur forvarnargildi.

Verum hrein og bein það er alltaf best og kemur í veg fyrir enn meiri vanda.


Höfundur

Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir

Vinnusálfræðingur og eigandi ráðgjafafyrirtækisins Officium ráðgjöf ehf. Hildur er með grunnmenntun í sálfræði, MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík, stjórnendamarkþjálfi(Executive Coach) frá opna Háskolanum, Leadership Management International stjórnendaþjálfi og mastersgráðu í Vinnusálfræði frá London Metropolitan University,

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband