Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2018

Fóður fyrir nettröll

Tæknivæðingunni hefur fleytt fram og þróast hún á leifturhraða.  Allt er á fullu og allt gerist hratt og örugglega. Bregðast þarf hratt við sem flestu og fæst þolir neina bið. Áreitið er mikið úr öllum áttum og því fylgir án efa þó nokkur streita enda höfum við jú bara takmarkaðann tíma til að sinna öllu þessu áreiti. Til að ná að fylgjast með því sem gerist fer fólk stundum hratt yfir fjölmiðla og  „klikkar“ stundum á fyrirsagnir greina sem það hefur ekki tíma til að lesa en tjáir sig jafnvel um málið í netumræðunni.

Í öllum þessum hamagangi erum við bara breyskar manneskjur sem þurfum að eiga samskipti við aðra með mismunandi hætti alla daga. Við verðum að játa það að samskipti geta verið erfið og flókin. Við lesum til að mynda mikið í líkamstjáningu annarra og skiljum þannig frekar hvað sagt var ef það er virkaði tvíbent. Skrifleg samskipti eru flóknari. Þar getum við ekki lesið úr líkamstjáningu og stundum virka orð sem beitt eða móðgandi án þess að það hafi verið ætlun þess sem þau ritaði. Þar er líka vísað í tákn sem fylgja sem eru ekki alltaf skilin eins og til stóð. Hver kannast t.d. ekki við að hafa sent tölvupóst í flýti sem hefur verið misskilinn.

Það er hins vegar annar hængur á þessu máli, hin svokölluðu nettröll. Þeir sem annað hvort sigla undir fölsku nafni í netheimum eða þeir sem nota netið til að fara í menn í stað málefna og fá þannig útrás fyrir gremju, reiði og jafnvel ofbeldi í garð annarra á netinu. Þeir fara bæði í fólk sem það þekkir og þekkir ekki.  Þessir aðilar fara offari þar sem þeir eru faldir á bak við tölvuna heima hjá sér og fá útrás fyrir innbyggða reiði. Þeir horfa ekki í augu þess sem þeir tjá sig um og geta því hagað sér „ábyrgðarlaust“.  Það er ekki hægt að skilja þannig framsetningu öðruvisi en að hún sé gerð af ásetningi.

„Virkir í athugasemdum“ er ákveðið fyrirbæri sem einhverra hluta er enn við lýði hjá sumum netfjölmiðlum. Þar hefur fólk frjálsan aðgang til að tjá sig um menn og málefni og oft um misgáfulegar fréttir af öðru fólki sem oftar en ekki eru gerðar úr Facebook statusum hjá einhverjum einstaklingi út í bæ. Jafnvel er það frétt um einhverja hugsun eða tilfinningu sem viðkomandi hefur varðandi eitthvað málefni og úr því er gerð frétt.  Sumt af því sem þar er sett fram er verulega særandi og jafnvel ærumeiðandi fyrir þann sem veist er að.

Við sem búum í litlu þjóðfélagi eins og á Íslandi þar sem flestir tengjast með einhverjum hætti í gegnum vini, ættingja og kunningja, verðum að vanda okkur betur. Fjölmiðlar geta lagt sitt af mörkum t.d með því að loka fyrir þessa opnu athugasemdar dálka og þannig hætt að fóðra nettröllin. Hafi fólk þörf til að tjá sig um fréttir eða annað fólk getur það gert það á sínum eigin Facebook síðu en ekki með aðgengi að alþjóð. Þá er kannski von um að fólk beri meiri ábyrgð á orðum sínum en ella. Þó svo að þessi hópur sé blessunarlega lítill þá er hann hávær,meiðandi og ýtir undir sundrung og átök frekar en samstöðu.

Við þurfum að vera börnum okkar fyrirmyndir og við berum þar mikla ábyrgð sem fullorðið fólk. Við erum öll að læra að fóta okkur í þessum tæknihraða og þeim breytingum sem fylgja. Hins vegar höfum við sjálf vald til að breyta hegðun. Við viljum öll að það sé komið fram við okkur af virðingu og kurteisi og við viljum líka að slíkt þróist á jákvæðann hátt eins og tæknibyltingin. Orð eru hegðun og þar verður að setja mörk. Notum orðin okkar af ábyrgð og skynsemi og hættum að fóðra nettröllin. 


Höfundur

Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir

Vinnusálfræðingur og eigandi ráðgjafafyrirtækisins Officium ráðgjöf ehf. Hildur er með grunnmenntun í sálfræði, MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík, stjórnendamarkþjálfi(Executive Coach) frá opna Háskolanum, Leadership Management International stjórnendaþjálfi og mastersgráðu í Vinnusálfræði frá London Metropolitan University og mastersnemi í klínískri sálfræði frá sama skóla.

Des. 2024

S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband