Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2017
Stundum leiðist okkur. Það er mannleg tilfinning og við finnum hvað mest fyrir henni þegar við bíðum eftir einhverju eins og t.d. á biðstofu eftir lækni eða tannlækni. Hins vegar getur okkur stundum leiðst í vinnunni eða fundið fyrir svokölluðum, vinnuleiða (e. job boredom). Vinnuleiði er þekkt hugtak innan vinnusálfræðinnar sem hefur ekki fengið mikla umræðu.
Ef við erum með vinnuleiða þá finnst okkur vinnan vera leiðinleg, einhæf og lítið krefjandi. Þá erum við ekki eingöngu að tala um vinnu sem krefst sömu endurteknu hreyfinga eins og að vinna við færiband osfrv. Nútíma rannsóknir sýna fram á að það sé meira sem ýti undir vinnuleiða (e. job boredom) en einhæf störf fólks eins og fjallað var um eftir iðnbyltinguna. Vinnuleiði gerist bæði hjá fólki sem vinnur við ósérhæfð störf sem krefjast lítillar sem engrar menntunar og hjá þeim sem vinna við vinnu sem krefst sérhæfðrar menntunar eða háskólamenntunar.
Hvað er til ráða?
Rannsóknir hollenska prófessorsins Wilmars Schaufelis á vinnuleiða sýna m.a. að þeir sem hafa meira sjálfræði í sinni vinnu, hafi möguleika til að bæta vinnuaðferðir sínar. Þeir geta t.d. haft áhrif á breytingar í vinnuumhverfi og eigin viðhorfi og með því gert vinnuna innihaldsríkari. Að auki geta þeir sóst eftir fleiri áskorunum í starfinu með því að vera próaktífir þ.e að hafa frumkvæði í að nálgast ný verkefni og endurhugsa vinnuaðferðir. Það sem skiptir líka máli er að hafa nægjanlega mikið af verkefnum en ekki of lítið þannig að það sé engin andleg örvun til staðar. Vinna sem krefst lítils af manni getur leitt til vinnuleiða.
Þeir starfsmenn sem hafa lítið sjálfræði í sinni vinnu þurfa á aðstoð yfirmanna sinna að halda varðandi breytingar á þeirra vinnuumhverfi og vinnuháttum. Það er því mikilvægt að stjórnandinn hafi þessa þætti í huga hjá þeim sem vinna einhæf störf og hafa lítið sem ekkert svigrúm til athafna eða breytinga. Þó þarf að hafa í huga að slíkar breytingar geti verið skammlífar þar sem að tilbreytingin er stóri þátturinn í því að láta sér ekki leiðast í vinnunni. Því getur þetta orðið tvíeggja sverð þegar kemur að einhæfum störfum sem erfitt er að breyta.
Eðli máls samkvæmt eru þeir afkastaminni sem leiðist í vinnunni. Stjórnandinn getur þá líka haft áhrif á líðan fólks, starfsánægju og hvort það sýni helgun í starfi. Stjórnandi sem hvetur starfsmenn sína áfram og hrósar þeim reglulega fyrir vel unnin störf ýtir undir jákvæðni og vellíðan á vinnustaðnum. Góð samskipti, gott félagslíf og traustir vinnufélagar hafa líka áhrif á vinnuánægju fólks.
Í sjálfu sér eru þetta lógískar niðurstöður en þó er vert að vekja athygli á fyrirbærinu, vinnuleiða með það í huga að fyrirbyggja t.d kulnun í starfi því vinnuleiði og kulnun eru tvenn ólík fyrirbæri. Það er því mjög góð forvörn í því ef menning vinnustaðarins býður upp á möguleika meðal starfsmanna, að endurhanna vinnuna sína, breyta vinnuaðferðum eða nálgunum (e. job crafting) og getur komið inn sem góð forvörn líka fyrir alvarlegri tegund af vinnutengdum vanda sem er kulnun í starfi.
Það ætti engum að leiðast í vinnunni en ef svo á við um þig, ræddu þá við þinn yfirmann og stingdu upp á breytingum á tilhögun starfsins.
Bloggar | 25.8.2017 | 10:39 (breytt kl. 11:05) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eldri færslur
- Október 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Apríl 2023
- Nóvember 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Október 2021
- Júní 2021
- Júlí 2020
- Júní 2019
- Nóvember 2018
- Ágúst 2018
- Febrúar 2018
- Nóvember 2017
- Ágúst 2017
- Maí 2017
- Mars 2017
- Nóvember 2016
- Ágúst 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Nóvember 2015
- Ágúst 2015
- Júní 2015