Bloggfærslur mánaðarins, júní 2015
Á árum áður þegar kona varð fyrir kynferðisofbeldi var talið að hún hafi með einhverjum hætti boðið upp á það. Að hún hafi t.d. ögrað gerandanum með hegðun sinni, útliti eða klæðaburði. Þetta sama segja oft barnaníðinga, þ.e. þegar þeir réttlæta brot sitt gagnvart börnum. Dæmi um skýringu væri að barnið sjálft hefði sýnt kynferðislega tilburði. Í mörgum ríkjum heims er þetta enn við lýði og í sumum löndum er konum refsað fyrir að vera þolendur nauðgunar. Þetta viðhorf er sem betur fer á undanhaldi á Vesturlöndum. Hér á landi stingur það hins vegar í stúf að þolendur annars konar ofbeldis, t.d. eineltis (á vinnustað, í skóla eða á öðrum vettvangi), eru oft gerðir ábyrgir fyrir ofbeldinu. Í dag logar allt á frétta- og samfélagsmiðlum vegna frásagna kvenna um kynferðisofbeldi. Konur neita að þaga lengur og tala opinberlega um þessa erfiðu lífsreynslu. Það er frábær staðreynd hugaðra íslenskra kvenna sem neita að bera harm sinn í hljóði.
Á sama tíma spyr undirrituð sig að því hvernig á því standi að við erum ekki komin lengra í opinberun og umræðu á einelti, einkum og sér í lagi vinnustaðaeinelti. Þolendur vinnustaðaeineltis eru hikandi við að segja frá ofbeldinu sem þeir verða fyrir. Ástæðan er fyrst og fremst sú að það ríkja enn fordómar í þjóðfélaginu. Ef þeir koma fram þá trúa þeim fáir og/eða þeir sjálfir gerðir ábyrgir fyrir eineltinu. Þetta á sérstaklega við um hópelti (e. mobbing), þ.e. þá tegund ofbeldis þegar tveir eða fleiri einstaklingar veitast að öðrum einstakingi. Í slíkum tilvikum eru vinnuveitendur oft þátttakendur líka, þar sem þeir ásaka þolandann fyrir ofbeldið eða trúa ekki orðum hans. Þá falla rannsakendur í eineltismálum, sálfræðingar og læknar oft í þá gryfju að ásaka þolandann. Nánar tiltekið er viðhorfið oft að þolandinn sé vandamálið en ekki gerandinn. Undirrituð veit um nokkur slík tilvik hér á landi. Slík ályktun er annað áfall fyrir þolandann (á ensku talað um re-victimization).
Algengt er að gerendur vinnustaðaeineltis gefi þolendum að sök að eiga erfitt andlega og jafnvel koma af stað sögum um að viðkomandi eigi við geðrænan vanda að stríða. Einnig er það oft borið upp á þolendur að eiga erfitt í einkalífi. Ef um konur er að ræða eru þær stimplaðar erfiðar í samskiptum, klikkaðar, frekar/stjórnsamar o.fl.
Raunin er sú að þegar samskiptasaga margra þolanda er skoðuð kemur oft í ljós að hvorki fyrr né síðar hafi viðkomandi átt í samskiptavanda á vinnustað. Nauðsynlegt er þegar eineltismál eru skoðuð að kanna tvenns konar þætti, þ.e. þætti sem tengjast einstaklingum og þætti sem tengjast umhverfinu (t.d. stjórnun og menningu vinnustaðar). Er þetta mikilvægt í tvenns konar skilningi. Annars vegar til að komast að réttri niðurstöðu og hins vegar til að fyrirbyggja frekara einelti á vinnustaðnum.
Ef vanþekking úttektaraðila eða annað veldur því að rannsóknir leiða til rangra niðurstaðna, þá er ekki skrítið að þolendur stígi ekki fram og leit sér hjálpar. Bæði upplifa þeir vonleysi og ótta við að vera dæmdir. Skv. rannsóknum Workplace Bullying Institute(WBI 2013) kemur fram að 47% þolanda telja að fagmenn hafi ekki vitað nógu mikið um einelti til að geta aðstoðað þá með meðferð í kjölfarið. 70% fagfólks þyrfti skv. rannsókninni að fá frekari fræðslu um áhrif stjórnunar og menningar á umhverfið. Klínískir sálfræðingar fókusera mest á að eitthvað sé að í fari einstaklingsins sem til þeirra leitar (þolandans)og gera ekki ráð fyrir að aðrir umhverfis þættir í stjórnun hafi áhrif. Þetta er þekkt sem "the attribution error".
Eins og kerfið virkar í dag á Íslandi, þá er best fyrir þolendur að þegja. Vandinn er með öðrum orðum þaggaður niður. Um leið er óhætt að fullyrða að margir berjast við vanlíðan á vinnustað sem og í einkalífi. Skilaboðin í þessari grein eru þau að því fylgir mikil ábyrgð að rannsaka einelti og aldrei ásættanlegt að gera einn einstakling (þolandann) ábyrgan fyrir vandanum. Þolendur vinnustaðaeineltis eiga rétt á aðstoð og samþykki rétt einsog aðrir þolendur ofbeldis.
Höfundur er eigandi og ráðgjafi hjá Officium ráðgjöf ehf.
Bloggar | 10.6.2015 | 16:03 (breytt 11.6.2015 kl. 22:41) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eldri færslur
- Október 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Apríl 2023
- Nóvember 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Október 2021
- Júní 2021
- Júlí 2020
- Júní 2019
- Nóvember 2018
- Ágúst 2018
- Febrúar 2018
- Nóvember 2017
- Ágúst 2017
- Maí 2017
- Mars 2017
- Nóvember 2016
- Ágúst 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Nóvember 2015
- Ágúst 2015
- Júní 2015