Umræða um kulnun og fleiri stjórnunarlega þætti sem auka á vanlíðan í starfi voru til umfjöllunar í Kastljósi í vikunni. Þar kom fram að dæmi séu um að félagsmenn í stéttarfélögum fái ekki lengur greitt úr sjúkrasjóðum vegna aukinnar ásóknar í sjóðina. Þessi þróun hefur átt sér stað undanfarin ár og ekki fengið nógu verðskuldaða athygli hjá stjórnendum almennt að mati undirritaðrar þrátt fyrir mikla þjóðfélagslega umræðu. Því miður er stór hluti af þeim vanda sem og mikillar starfsmannaveltu, léleg stjórnun eða vankunnátta stjórnenda á málum er lúta að því hvaða áhrif skortur á stuðningi við starfsmenn hafa á vinnustaðinn. Þetta á að sjálfssögðu einnig við stuðning yfirstjórnar við millistjórnendur.
Það fylgir því mikil ábyrgð að vera stjórnandi með mannaforráð og í raun ættu þær kröfur að vera gerðar til stjórnenda (alla vega ríkis sveitarfélaga) að þeir hafi þekkingu á hvað það þýðir að vera með mannaforráð og stjórna vinnuumhverfi sinna undirmanna. Það skiptir því máli að ráða stjórnendur sem hafa þá eiginleika að geta sinnt starfi sínu hvað varðar þekkingu, menntun og reynslu af þeim málaflokki sem í hlut á. Þó er enn mikilvægara að viðkomandi búi yfir góðri samskiptahæfni sem og tilfinningagreind sem mikilvæg er í samskiptum við aðra einstaklinga. Þegar upp er staðið skiptir þetta mestu máli fyrir vinnuumhverfið í heild.
Pólitískt skipuð störf eða vinagreiðar eins og tíðkast hefur í gegnum tíðina er algjör andstaða við öll fræði í vinnusálfræði hvað mannaforráð varðar en eitt er ljóst að í nútíma samfélagi er starfsfólk meðvitaðra um réttindi sín og hvað telst eðlileg og sanngjörn framkoma á vinnustað en áður og því starfsmannavelta vinnustaða oft sú mælieineing sem sýnir fram á hæfni stjórnenda.
Fræga slagorðið okkar Íslendinga þetta reddast hefur svo oft komið okkur til varnar enda höfum við lengi búið við aðstæður sem hafa ekki unað okkur að skipuleggja fram í tímann t.d vegna veðurs ofl. Hins vegar er það þannig að aðstæður hafa líka breyst með frekari þekkingu og upplýsingaflæði og við getum brugðist við með vissu og því í forvarnarskyni.
Hins vegar er spurningin sú að ef aukin ásókn er í sjúkrasjóði og viðbrögðin þau að loka á það fólk sem á þarf að halda, hver á þá að bera kostnaðinn vegna veikindaleyfa sem eru afleiðing vanþekkingu stjórnenda ef stéttarfélögin hætta því? Starfsmennirnir sjálfir?
Við vitum að forvarnir eru besta leiðin til að fyrirbyggja hin ýmsu málefni sem geta kostað okkur mikið fjármagn og jafnvel mannslíf. Því er í raun mjög umhugsunarvert að þeim stjórnendum sem ráðnir eru inn til að fara með mannaforráð sé ekki gert skylt að fara í gegnum stjórnendaþjálfun áður en þeir taka við slíkri ábyrgð og að aðrar forvarnir eins og áhættumat sé einnig gert skylt og reglulega tekið út af eftirlitsaðilum. Gleymum ekki heldur að það er ábyrgð stjórna fyrirtækja og stofnana að taka þessi mál til skoðunar og veita stjórnendum aðhald. Þetta kerfi gæti sparað þjóðfélaginu háar upphæðir og auðgað líf margra.
Höfundur er vinnusálfræðingur
Flokkur: Bloggar | 25.4.2023 | 21:41 (breytt 27.4.2023 kl. 19:41) | Facebook
Eldri færslur
- Október 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Apríl 2023
- Nóvember 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Október 2021
- Júní 2021
- Júlí 2020
- Júní 2019
- Nóvember 2018
- Ágúst 2018
- Febrúar 2018
- Nóvember 2017
- Ágúst 2017
- Maí 2017
- Mars 2017
- Nóvember 2016
- Ágúst 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Nóvember 2015
- Ágúst 2015
- Júní 2015
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.