Kulnun er fyrirbæri sem mikið hefur verið rætt um undanfarið. Margir helstu sérfræðingar og vísindamenn er rannsaka kulnun og örmögnun eru frá Hollandi. Kulnun hefur verið þekkt vandamál í Hollandi í áratugi og fólk óhrætt við að ræða opinberlega um það að það sé ofurþreytt og útbrennt.
Alþjóðlega heilbrigðisstofnunin(WHO) viðurkenndi nýlega hugtakið kulnun í starfi og er það nú skilgreint skv. þeim greiningarviðmiðum sem fagfólk notar í sinni vinnu og er það vinnutengdur vandi en ekki sjúkdómur.
Á ráðstefnu samtaka evrópska vinnusálfræðinga sem haldin var í Torínó á Ítalíu á dögunum kom fram í máli hollenska prófessorsins Arnold Bakkers, að aukning á kulnun eigi sér stað í hjá ungu kynslóðinni og nefndi hann þá sérstaklega ungt fólk undir 25 ára aldri. Þetta vakti athygli mín sérstaklega þar sem við sem og aðrar norðurlandaþjóðir, að minnsta kosti, erum að missa ungt fólk á örorku í auknu mæli. Þetta hljómar kannski ekki rökrétt þar sem unga fólkið er ekki með langa vinnusögu að baki þannig að maður veltir fyrir sér hvað valdi. Skv. Hagstofunni í Hollandi er aukning í kulnun í starfi hjá 35 ára og yngri og telur um 100.000 ungmenni. Spurningin er þá hvort að unga kynslóðin okkar sé að falla undir þá kulnunarskilgreiningu sem stundum er rætt um að eigi sér stað hjá aldamótakynslóðinni. Sú skilgreining er svo sem ekki viðurkennd sem slík en gæti flokkast undir hugtakið örmögnun en hvað ætli valdi?
Samkeppni er mikil meðal nemenda í gagnfræðaskólum og framhaldsskólum. Bestu framhaldsskólarnir taka inn þá sem eru með hæstu einkunnir og færri komast að en vilja. Þannig verður samkeppnin mikil. Þeim sem gengur verr í skóla líður ekki vel í þessu umhverfi. Að auki valda samfélagsmiðlarnir því að samanburður ungs fólks verður mikill. Það sér aðra í besta formi lífsins, búa til fullkomnar kökur, vera með heimilið sitt eins og á forsíðu Hús og híbýli osfrv. Allir virðast kunna allt, eru jafnvel orðnir sérfræðingar í flestu og sumir farnir að gefa út bækur hvernig mastera á lífið, ekki orðið þrítugt.
Þessi mikla pressa frá samfélagsmiðlum um að allt sé fullkomið hjá öðrum skapar spennu og togstreitu hjá unga fólkinu. Því finnst það þurfa að skara fram úr á öllum sviðum. Margir geta ekki staðist þessa pressu, sem eðlilegt er, og detta þá niður í vonleysi. Svo er mikil pressa hjá unga fólkinu að verða frægt. Að verða áhrifavaldar á samfélagsmiðlum og deila lífi sínu á opinberum vettvangi.
Væntingarnar verða óraunverulegar þegar venjulegt líf manns er borið er saman við glansmyndir sem eiga ekki við rök að styðjast í raunveruleikanum. Fólk getur því farið að efast um að það sé nógu gott þar sem þeirra líf er ekki eins fullkomið og líf hinna. Ekki nóg með það því svo eru mörgum myndum stillt upp fyrir myndatöku og myndir fótósjoppaðar af fallegu ungu fólki með hinn fullkomna líkamsvöxt sem virðist eiga nóg af peningum til að eyða og ferðast um heiminn.
Þegar unga fólkið er að mynda sína eigin sjálfsmynd getur verið að hún bíð hnekki við allan þennan gervi samanburð. Strákarnir tjá sig almennt minna og halda því sinni vanlíðan með sjálfum sér og loka sig af. Stelpurnar hafa þó hvora aðra til að tala við en einelti getur aukist þegar einhver skarar framúr í þeim hring.
Svo allt þetta sé nú ekki nóg þá kemur líka spurningin hvað ætlarðu að verða þegar þú ert orðinn stór? Með svona milljón valmöguleika getur manni nú bara fallist hendur.
Auðvitað er ekkert hægt að segja að eitt eða annað orsaki örmögnun/kulnun hjá unga fólkinu en þessir ofangreindu þættir saman komnir eru ekki til þess fallnir að einfalda lífið. Samfélagsmiðlar eru ekki af hinu illa einu því þarna inní eru aðrir áhrifaþættir eins og sjálfstraust hvers og eins, persónuleiki, uppeldi og fleiri umhverfisþættir. Við sem eldri erum og höfum ekki alist upp við samfélagsmiðla vitum betur að lífið er ekki ein samfelld glansmynd. Unga fólkið hefur hins vegar engan annan samanburð. Þetta er lífið sem það þekkir. Er því eitthvað skrýtið að margir örmagnist?
Gott og vert er að hafa þessa þætti í huga þegar unnið er með ungu fólki því það er samfélagsleg ábyrgð okkar allra að aðstoða þá sem hafa ekki bjargráðin í þessum aðstæðum.
Flokkur: Bloggar | 17.6.2019 | 16:40 (breytt 20.6.2019 kl. 14:14) | Facebook
Eldri færslur
- Október 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Apríl 2023
- Nóvember 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Október 2021
- Júní 2021
- Júlí 2020
- Júní 2019
- Nóvember 2018
- Ágúst 2018
- Febrúar 2018
- Nóvember 2017
- Ágúst 2017
- Maí 2017
- Mars 2017
- Nóvember 2016
- Ágúst 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Nóvember 2015
- Ágúst 2015
- Júní 2015
Athugasemdir
Aldamótakynslóðin er eitt orð.
Jón Steinar Ragnarsson, 18.6.2019 kl. 01:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.